SnæfellsstofaSkriðuklaustur
Gestastofa fyrir Vatnajökulsþjóðgarð að Skriðuklaustri. OPIN SAMKEPPNI 1. VERÐLAUN.
Grunnhugmynd að hönnun gestastofa fyrir Vatnajökulsþjóðgarð
Áhrifasvæði hins mikilfenglega Vatnajökulsþjóðgarðs þekur næstum hálft landið og landgrunnið þar undan. Jaðrar jökulsins eru breytilegir og í stöðugri mótun vegna eldsumbrota og stöðugra veðurfarsbreytinga. Síbreytileiki jökulsins og áhrifasvæðis hans er ætlað að verða þemað í hönnun og formsköpun allra gestastofanna.
Vatnajökull og nágrenni geymir mörg aðalatriði í sköpunarsögu Íslands og jarðarinnar undanfarnar ármilljónir, mótun jarðelda á berg- og hraunmyndunum, jökulís og samspil þess við vatn og vind. Form og formsköpun náttúrunnar mun hafa sterkar tilvitnanir í rýmis- og efnisval gestastofanna.
Snæfellsstofa miðlar reisn náttúrunnar umhverfis hana og er í sterkum tengslum við nærumhverfið. Hún laðar gesti að vegna áberandi sérstöðu en virkar um leið hvetjandi til inni- og útiveru. Form og hönnun byggingarinnar eru tveir ásar sem ganga yfir í X form þannig að álmur hennar nýtist sem best á ólíkum árstímum.
Snæfellsstofu er tyllt niður á landið þar sem áberandi brot er í hæðarlínum og hún látin svífa létt yfir og fram af landinu eins og klettaveggur. Staðsetningin er valin til að tryggja góðar sjónlínur til fjalla og skapa nærsvæðinu skjól.
Form Snæfellsstofu er innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins; hvernig hann ýmist brýtur sér leið eða hopar og sverfur nýjar, síbreytilegar náttúruperlur í landslagið. Þessi sköpunarverk eru fyrirmyndin að þeim rýmum og formum sem finna má í Snæfellsstofu.
Snæfellsstofa sækir hughrif til Gunnarshúss með notkun byggingarefna af staðnum þ.e lerki í veggklæðningar, úthagatorf á þak og hleðslur á lóð hlaðnar úr heimafengnu grjóti. Efnisval og lita tilvitnanir eru sótt í nærumhverfið. Skammt undan eru miklir skógar sem verða sýnilegir í ásýnd hússins. Lárétt og dálítið hallandi jarðlög (tertíer hraun) með áberandi skáskotnum berggangi endurspeglast í meginásnum bæði í formi og efnis- og litavali.