Hjúkrunarheimili Húsavík
Samkeppnistillaga - 1. verðlaun.
60 eininga hjúkrunarheimili í tengingu við núverandi heilbrigðisþjónustu.
Leiðarljós og markmið tillögunnar er að horft er til baka og litið til allra þeirra gæða sem litlu þorpin víða um land höfðu á líf fólks með sínu smágerða byggingarmynstri, stutt á milli staða, yfirsýn, samkennd og samvinnu íbúanna. Staðsetning og form húsanna er valin með því markmiði að tryggja íbúum dagsbirtu og skjól á mismunandi tímum sólarhringsins ásamt því að fá mismunandi yfirsýn, útsýni yfir bæinn, höfnina, Skjálfandann og ekki síst til að njóta hins stórkostlega útsýnis yfir á Kinnafjöllin sem segja má að endurspegli sig í formi húsanna. Þannig teljum við að hægt sé að skapa íbúum og starfsmönnum heimilislega umgjörð til að lifa, starfa og upplifa margbreytileika þorpsins frá degi til dags. Tillagan er með megin aðkomu um opið miðjurými sem teygir sig upp allar hæðir og heimilin skipulögð þannig að það sé góð yfirsýn, stuttar boðleiðir og að gangar falli inn í og verði hluti af opnum sameiginlegum rýmum. Mikil áhersla er á að öll heimili og útisvæði tengist saman og myndi hringhreyfingar (endalausa hreyfingu) til að tryggja samskipti þvert á heimili og hæðir. Frá sameiginlegu rýmunum er beint aðgengi frá öllum heimilum beint út í garð. Með því að brjóta bygginguna upp í smærri húseiningar og fella þær inn í landið og snúa íbúðunum að bænum gefst íbúunum tækifæri á að fylgjast með lífinu í bænum, njóta dagsbirtu, sólargangsins og skjóls. Allar íbúðir eru annaðhvort með beint aðgengi út á verönd í garðinum eða með franskar svalir. Tillagan gerir ráð fyrir að skapa skjólgóð garðsvæði sem hvetja til útiveru og samskipta á milli íbúanna allan ársins hring.